thoragella

work it baby , work it, own it....

fimmtudagur, janúar 02, 2003

Vinna

Í morgun vildi ég ekki fara í vinnuna. Mig langaði bara að vera heima og leika mér við Unu Rán og Tjörva. En ég fór samt sem áður og dagurinn hefur svo sem bara verið ágætur. Mér finnst ágætt þegar það er mikið að gera og tíminn líður hratt. Ömurlegast þykir mér þegar ég sit og horfi út í loftið og líður eins og fávita þar sem ég kann ekki neitt á hlutina hér.

Stundum hugsa ég með mér að ég ætli bara að vinna hérna í þessa 6 mánuði og hætta svo. Svo hugsa ég að ég ætli bara að hætta strax. Daginn eftir get ég vel hugsað mér að vinna hérna barasta til frambúðar, eða hér um bil. En alltaf langar mig að hafa Unu hjá mér og kvíði svo fyrir þegar Tjörvi er búinn í fæðingarorlofinu og fer að vinna. Það að setja Unu til dagmömmu hræðist ég óskaplega mikið. Ég veit ekki af hverju þar sem krílunum finnst yfirleitt mjög gaman að fá að leika sér allann daginn við önnur börn og fara út og leika. Hafa gott af því og læra mikið. Ég er til dæmis alltaf að heyra góðar sögur af dóttur vina okkar sem er búin að læra öll jólalögin og syngur eins og engill og dansar með hjá dagmömmunni sinni. Kannski er málið bara að ég vil vera eina MAMMAN í kringum Unu. Eigingirnin að taka öll völd, aðskilnaðaróttinn eykst.

En þar sem Tjörvi er í vaktavinnu vinnur hann bara 2-3 daga í viku og svo um helgar, þannig að Una þyrfti ekki að vera 8 tíma á dag alla vikuna heldur bara af og til. Fyrir utan allar ömmurnar í kringum hana sem sjá ekki sólina fyrir henni og vilja ólmar hafa hana hjá sér. Þetta er örugglega eins og allt annað og venst með tímanum sérstaklega þegar ég sé hana vera káta og koma geislandi frá dagmömmunni sinni. Samt finnst mér gott að hugsa til þess að hún fer ekki fyrr en eftir 2 mánuði....

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home